![]()
Tónlistarkonan MIMRA eða María Magnúsdóttir eins og hún heitir réttu nafni sendi fyrir skömmu frá sér plötuna Sinking Island. Platan hefur átt sér nokkurn aðdraganda en hún segir að titillag plötunnar sé í miklu uppáhaldi.
Albumm.is náði tali af MIMRU og sagði hún okkur allt um plötuna!
Er Sinking Island búin að vera lengi í vinnslu og hvaðan sækir þú innblástur fyrir tónlistarsköpun þína?
Já, platan hefur átt sér nokkurn aðdraganda. Lögin eru misgömul líklega samin á um fjögurra ára tímabili gegnum mikinn umróta- og breytingatíma í lífi mínu. Ég tók svo plötuna upp með dásamlegu tónlistarfólki og hljóðhannaði sem mastersverkefni í náminu mínu í London. Efni plötunnar var þannig líka tilbúið fyrir um ári síðan en kemur út núna. Löng fæðing semsagt. Bjarni Bragi Kjartanson sá um masteringu og ég gef plötuna út í föstu formi bæði á geisladisk og vínyl. Plötuútgáfan sjálf var fjármögnuð með Karolina Fund söfnun. Ég sæki innblástur í allt, í mitt eigið líf og listina í kring um mig.
![]()
Áttu þér uppáhalds lag á plötunni og hvaða lag var erfiðast í fæðingu?
Ég held að titillag plötunnar sé uppáhalds lagið mitt á plötunni. Það er lag sem varð til á einum degi, stór saga á bakvið það þó lagið sé lágstemmt og þægilegt áheyrnar. Svo var upptökuferlið við það svo skemmtilegt, röð tilviljana létu það fá hljóðheiminn sem það endaði í. Ég lék mér með klapp og vatnsflöskur til að búa til blautan takt, kontrabassaleikarinn minn bætti inn óvæntum yfirtónum og ég fílaði svo vel ákveðin mistök í píanóleik hjá mér að ég hélt þeim og fleira í þeim dúr. Mushroom Cloud var líklega erfiðast í fæðingu, bæði meðan ég samdi það og þegar ég tók það upp. En þegar það kom heim og saman varð það eitt skemmtilegasta lagið að mínu mati.
![]()
Um hvað er platan og er hún að einhverju leiti frábrugðin fyrri verkum?
Platan inniheldur margar litlar sögur sem fá að mynda eina heild og segja sögu frá upphafi til enda, um ást, gleði og missi. Stundum þarf maður að þjást til að skapa, ég nota það óspart. Áður gaf ég út plötuna Not Your Housewife árið 2009 sem var soul og fönkskotin poppplata. Svo kom út electro-pop stuttskífa beint á netið frá hljómsveit minni Early Late Twenties fyrir tveimur árum. Platan er mjög frábrugðin fyrri verkum í stílbrigðum, ég hef mótað minn eigin hljóðheim og þróast sem textahöfundur. Á þessari plötu blandast saman hljóðheimar elektóníkur og orchestral pop tónlistar í skemmtilega samsuðu.
![]()
Þú heldur útgáfutónleika 8. Nóvember næstkomandi, við hverju má fólk búast á tónleikunum?
Útgáfutónleikarnir mínir verða beint í kjölfar Iceland Airwaves hátíðarinnar og haldnir í Bæjarbíói í Hafnarfirði ásamt 12 manna hljómsveit. Fólk má búast við eina skiptinu sem platan verður flutt í fullri lengd með fullu bandi í stóru húsi eins og hún á að hljóma. Þetta verður mikil upplifun enda er ég með einvala lið tónlistarfólks með í för. Með mér spila Börkur Hrafn Birgisson á gítar, Þorvaldur Þór Þorvaldsson á trommur og Róbert Þórhallsson á bassa, Samúel Jón Samúelsson á básúnu, Sylvía Hlynsdóttir og Elvar Bragi Kristjónsson á trompet, Sólveig Moravek á klarinett og saxófón, Unnur Birna Björnsdóttir og Matthías Stefánsson á fiðlur, Karl Peska á víólu og Margrét Árnadóttir á selló. Miðasala er í fullum gangi á tix.is.
Mimramusic.com
The post „LÖGIN ERU SAMIN Í GEGNUM MIKINN UMRÓTA OG BREYTINGATÍMA Í LÍFI MÍNU” appeared first on Albumm.