![]()
Íslenska strigaskó (Sneaker) síðan Iceland Kicks hefur heldur betur slegið í gegn en þar má finna allt það heitasta sem er að gerast í heimi strigaskónna! Stefán John og Edward Árni halda úti síðunni og eru þeir miklir áhugamenn um strigaskó og á körfuboltahetjan Michael Jordan stóran þátt í því. Segja má að drengirnir lifi fyrir strigaskó en þeir hafa ekki tölu yfir hvað þeir eiga mörg pör en þeir eru duglegir að skipta út og selja á réttum tíma.
Albumm.is náði tali af drengjunum og svöruðu þeir nokkrum spurningum um Iceland Kicks og menninguna svo sumt sé nefnt.
Nú haldið þið úti síðunni Iceland Kicks á Facebook. Afhverju stofnuðuð þið þessa síðu og hvernig síða er þetta?
Við tókum eftir því hvað sneaker-menningin á Íslandi var orðin stór og sífellt stækkandi og þörfin væri mikil fyrir miðil á íslensku sem væri “up-to-date” um allt það nýjasta sem væri í gangi í þessum heimi hverju sinni og viðtökurnar leyndu sér ekki. Stefán John er stofnandi og ritstjóri síðunar og Edward Árni sér einnig um síðuna auk aðstoðar einstöku sinnum frá fleirum. Auk frétta og tilkynninga reddum við einnig svo kölluðum “raffle” linkum sem mikið er spurt um þar sem fólk getur skráð sig í pott um að vera dregið út til að geta átt möguleika á að næla sér í eftirsótt pör fyrir stærri útgáfur þegar við á og líka beinar slóðir þegar sendingarmöguleikar til Íslands standa til boða.
![]()
Draumaskórnir hans Edda eru bæði Yeezy Red Octobers og Off White x Jordan rauðu, báðir á verðbilinu frá 300.000- 700.000 krónur á endursölumarkaðnum.
Hvað er um að vera á síðunni Iceland Kicks og má finna allt það ferksasta þar?
Við reynum að vera alltaf með puttann á púlsinum um allt það heitasta sem er í gangi í sneaker heiminum í dag. Við póstum ekki alveg öllu sem gerist en öllu því sem við teljum að fólk hafi áhuga á og því sem fylgjendur okkar spyrja mikið um en þó með skemmtilegum og líka flippuðum útgáfum inná milli.
Hafið þið lengi verið áhugamenn um strigaskó og hvað er það við skó sem heillar ykkur?
Við höfum verið áhugamenn um skó í mörg ár og á sagan á bakvið yfirnáttúrulegan körfuboltaferil Michael Jordans sennilega stóran þátt í því enda ólst maður upp við að sjá hann á hátindi ferilsins og skapar á sama tíma eitt stærsta íþróttamerki heimsins, Air Jordan, með Nike.
Kanye West kemur svo með ferskan innblástur í senuna fyrst hjá Nike og svo núna hjá Adidas og selst alltaf allt upp sem hann gerir og gaman að sjá þróunina hjá honum og hjá Adidas með tilkomu BOOST botnsins sem tröllriðið hefur öllu og svo núna með 4D tækninni.
Það jafnast líka bara fátt við tilfinninguna sem maður upplifir í splunkunýjum og skínandi hreinum strigaskóm. Svolítið eins og þegar maður kaupir sér nýjan bíl, maður heldur að ALLIR séu að horfa á sig þó það sé bara tilfinning.
![]()
Hvað eigið þið marga skó og hvað eru draumaskórnir ykkar?
Hahaha við hreinlega höfum ekki tölu yfir það lengur, en það skiptir einhverjum tugum a.m.k. Svo erum við báðir duglegir að skipta út, selja á réttum tíma og uppfæra skápana.
Svo mikilvægt er að halda pörunum hreinum og í góðu ástandi sérstaklega ef um verðmæt pör er að ræða því þá gætiru hæglega fengið aftur þann pening sem þú borgaðir fyrir þá og ef að eftirspurn hefur aukist og skórnir eru eftirsóttir, þá jafnvel ennþá meira. Sum pör geta nefnilega verið afar góð fjárfesting. Draumaskórnir hans Stebba eru DJ Khaled x Jordan III en þeir komu aldrei “officially” út og aðeins útvaldir vinir plötusnúðsins sem fengu pör sem sumir þeirra bjóða sín til sölu á um 1.7 milljónir króna fyrir parið.
![]()
Er ekki erfitt að verða sér úti um einstaka skó og hvaða merki eru í uppáhaldi?
Jú það getur nefnilega verið mjög erfitt að næla sér í par á “retail” verði (eða búðarverði eins og maður myndi segja á íslensku) ef maður sér fram á að endursöluvirði þeirra verði 10 sinnum meira um leið og þú labbar með þá úr búðinni því eftirspurn er mikil og upplag oftast mjög lítið og þá sérstaklega Jordans, Yeezy’s og OFF White sem eru í miklu uppáhaldi hjá fólki núna.
Þetta er ástæðan fyrir því að fólk bíður í röðum heilu næturnar fyrir utan verslanir þegar eftirsótt pör eru gefin út. Bæði því áhugasamir safnarar vilja bæta við safnið sitt en oftast nær vegna þess að fólk veit að það getur fengið töluvert meira fyrir þá á endursölumarkaðinum, sem er orðinn frekar stór hér á landi líkt og annars staðar í heiminum. Því er mikilvægt í þessum bransa að þekkja rétta fólkið og mynda sambönd við verslanir, flutningsaðila og starfsfólk allsstaðar í heiminum. Ef þú gerir eitthvað fyrir þau þá gera þau eitthvað fyrir þig.
Þetta kallast í sneaker heiminum að vera með “PLÖGG” – og skiptir öllu máli.
Hvað er á döfinni hjá ykkur og eitthvað að lokum?
Við erum að skoða ýmsa möguleika sem hafa verið bornir undir okkur og einnig samstörf en ekkert meitlað í stein ennþá og við höldum auðvitað áfram að halda landanum vel upplýstum um sneaker menninguna svo hún haldi áfram að stækka. Endilega fylgist með okkur á facebooksíðu Iceland Kicks því september er td. stútfullur af YEEZY útgáfum, Húrra Reykjavík er staðurinn til að vera á og heilmikið framundan!
ICELAND KICKS
The post „Það jafnast ekkert á við splunkunýja og skínandi strigaskó” appeared first on Albumm.