Í dag býður Nova og Margeir Steinar Ingólfsson eða einfaldlega Dj Margeir í heljarinnar Karnival í Öskjuhlíðinni! Búast má við sannkkölluðum ævintýraheim en á boðstólnum verður meðal annars jóga undir berum himni og diskókúlur svo afar fátt sé nefnt!
Albumm.is náði tali af Margeiri og svaraði hann nokkrum spurningum um herlegheitin.
Hvað er Karnival í Öskjuhlíð og hvernig kviknaði þessi hugmynd?
Ég hef verið að þróa Karnival á Klapparstíg á Menningarnótt síðustu ár og lengi langað til að útvíkka þá hugmynd og framkvæma annars staðar. Ég sé fyrir mér danspartí í fallegri náttúru þar semfurðuverur taka vel á móti þér og bera þig inn í sumarið.
Hverjir koma fram á karnivalinu og við hverju má fólk búast?
Fólk má búast við hinu óvænta. Hver veit nema að það verði fullt af kanínum þarna í stuði og fólki að LARPA? Annars er þessi listi gefinn upp, en hann er alls ekki tæmandi:
DJ Margeir, Dj YAMAHO, Daði Freyr, Úlfur Úlfur, Daníel Ágúst (GusGus), BRÍET, BARAKAN DRUM AND DANCE, Snorri Helgason, Teitur Magnússon og Tómas Oddur – Yoga Moves
Afhverju Öskjuhlíðin og er það ekki tilvalin staðsetning til skemmtanahalds?
Ég hef í gegnum árin verið mjög leitandi að óvenjulegum stöðum til að setja upp danspartí, hvort sem það er út á miðri götu í miðbænum, í Bláa lóninu, upp á fjalli, í Eiffel turninum eða í 3000 ára gömlu rómversku hofi í Króatíu. Ég skil ekki hvernig mér datt ekki í hug að nota Öskjhlíðina fyrr? Hún er kannski of nálægt manni? Við vorum annars að setja upp svið og annað í gær og ég held satt best að segja að þetta verði einn magnaðasti tónleikastaður landsins!
Hvenær byrja herlegheitin og eitthvað að lokum?
Veislan hefst á slaginu 18:00. Að lokum vil ég bara þakka frábæru teymi, þar helst ber að nefna leikmyndahönnuðina í Samfesting og Luxor sem sér um hljóð og ljós. En ekki síst Nova og öllu þeirra starfsfólki og að þau séu tilbúin til þess að treysta mér og mínu innsæi og hjálpa okkur að gera eitthvað svona geggjað.
Við minnum á að stuðið byrjar stundvíslega kl 18:00 í dag og er frítt inn!
The post „Ég held að þetta verði einn magnaðasti tónleikastaður landsins” appeared first on Albumm.